Opinber þjónusta á netinu 8

Heimabanki Landsbankans 
www.landsbankinn.is   

Lýsing á opinberri þjónustu

Landsbankinn er að mestu í eigu íslenska ríkisins, sem fer með 98,2% eignahlut. Landsbankinn er eini bankinn með aðsetur bæði á Höfn í Hornafirði og á Húsavík.
Með netbanka Landsbankans er hægt að fá yfirlit yfir inneign á bankareikningum, sjá og greiða ógreidda reikninga, millifæra á aðra reikninga og sækja um lán eða yfirdráttarheimild. Aðrir bankar bjóða sambærilega þjónustu.
Til að geta notað netbanka Landsbankans, þarf að vera í viðskiptum við Landsbankann og vera með aðgang að netbankanum.

Innskráning
• Hægt er að skrá sig inn á netbankann með því að nota innskráningu með notendanafni og lykilorð.
• Einnig er hægt að skrá sig inn með rafrænum skilríkjum. Þá þarf að slá inn farsímanúmer og smella á hnappinn ,,Auðkenna mig”. Eftir stutta stund opnast staðfestingargluggi í síma. Eftir að hafa yfirfarið að sama öryggisnúmer sé á heimasíðunni og símanum þínum slærð þú inn PIN númerið þitt í símann.
• Á forsíðu má sjá yfirlit yfir bankareikninga og innistæðu, stöðu á kreditkortum og ógreidda reikninga, ef einhverjir eru.
• Ef smellt er á heiti bankareiknings má skoða yfirlit bankareiknings, úttektir (í rauðu) og innborganir (í grænu).
• Undir „aðgerðum“ í yfirliti bankareikninigs má millifæra, greiða inn á kreditkort, sjá PIN númer korta, lesa nánar um bankareikninginn og breyta leyninúmeri reikningsins.

Forsíða heimabankans býður uppá fjölda aðgerða, stikan efst á forsíðu býður uppá eftirfarandi:
• ,,Ógreiddir reikningar” Yfirlit yfir, og möguleiki að greiða, ógreidda reikninga.
• ,,Stöðuyfirlit“ Yfirlit yfir öll þín fjármál hjá Landsbankanum.
• Undir ,,lán” má sjá yfirlit lána viðkomandi og upplýsingar um mismunandi lán í boði.
• Undir „Rafræn skjöl“ má nálgast rafræna launaseðla, reikninga og ýmis önnur skjöl.
• Undir „Lífeyrissparnaður“ má lesa um lögbundinn lífeyrissparnað og viðbótarlífeyrissparnað.

Millifærslur
• Til að millifæra smellir þú á hnappinn “Millifærslur” efst á forsíðunni, þar velur þú hvert skal millifæra.
,,Á eigin reikning” Allir reikningar sem þú hefur prókúru á má velja af lista.
,,Eftirlætis“ Listi af stjörnumerktum aðilum.
„Síðustu” Listi af aðilum sem millifært hefur verið á. Þar má einnig sjá litla stjörnu við nöfn einstaklinga, með því að smella á stjörnuna verður hún dökkblá og mun viðkomandi þá birtast á lista undir „Eftirlætis“.
,,Nýr viðtakandi” Þá þarf að slá inn kennitölu og bankareikning viðkomandi.
• Mikilvægt er að muna að skrá sig út með því að velja „útskrá“.

Færni til þess að geta notað þjónustuna
Til að geta notað netbanka Landsbankans, þarf viðkomandi að vera í viðskiptum við Landsbankann og hafa aðgang að netbanka með annað hvort notendanafni og lykilorði eða rafrænum skilríkjum.

Leiðir til að fá aðgang að þjónustunni
Stofna þarf netbanka en það er hægt að gera á vefsíðu bankans. Hægt er skrá sig inn í netbankann bæði í tölvu og snjallsíma og einnig með því að hala niður smáforriti Landsbankans.

Öryggisþættir tengdir þjónustunni
Við innskráningu í netbanka Landsbankans er mikilvægt að athuga hvort tákn með lás sé fyrir framan vefslóðina á leitarstiku vafrans en það þýðir að vefsvæðið sé öruggt. Landsbankinn notar sitt eigið öryggiskerfi sem lærir að þekkja notandann og sendir út tilkynningu ef einhver aðgerð í netbanka þykir óeðlileg. Landsbankinn sendir þá kóða í smáskilaboðum til að fá staðfestingu þess að aðgerðin sé framkvæmd af eiganda netbankans. Hafa skal í huga að bankar senda þér aldrei skilaboð þar sem þú ert beðin/n um að skrá þig inná netbankann til að skoða eitthvað. Bankar senda heldur ekki skilaboð eða hlekki þar sem þarf að slá inn kreditkortanúmer eða gefa upp notendanafn og lykilorð. Aðeins skal skrá sig inn á netbanka Landsbankans með því að slá inn vefslóð beint inn í vafrann eða nota Landsbanka appið. Bankinn mun aldrei senda þér slóð sem mun flytja þig á aðra síðu til að skrá þig inn.  

Áhrif (hvernig getur þjónustan haft áhrif, breytt, bætt líf fólks)
Í netbankanum er hægt að nýta ákveðna þjónustu bankans hvenær sólarhrings sem er. Netbankinn einfaldar fólki að sinna einföldum hlutum eins og að sjá stöðu á bankareikningum, millifæra og borga reikninga.

Download PDF