Opinber þjónusta á netinu 6

heilsuvera.is  

Lýsing á opinberri þjónustu

Heilsuvera er heimasíða á vegum embættis Landlæknis og heilsugæslunnar. Þar er hægt að fá samband við lækni/hjúkrunarfræðing, panta viðtalstíma og/eða endurnýja lyfseðil. Til að gera þetta þarf að skrá sig inn á „mínar síður“ með rafrænum skilríkjum.

Eftirfarandi eru leiðbeiningar til að hjálpa þér að rata um heimasíðu Heilsuveru:
• Á forsíðu heilsuveru er mikið magn af upplýsingum og fróðleik t.d. fyrir eldra fólk. Þar er hægt að lesa sér til um ýmislegt sem tengist t.d. svefni, næringu, hreyfingu og fyrirbyggjandi aðgerðum við ýmsum sjúkdómum. Ekki er þörf á innskráningu til að nálgast þetta efni.
• Á heimasíðunni birtist glugginn „Getum við aðstoðað?“ neðst í hægra horninu þar sem hægt er að fá samband við hjúkrunarfræðing og fá ráðgjöf. Ef valið er ,,opna netspjall”, opnast gluggi þar sem fylla þarf inn viðeigandi upplýsingar áður en smellt er á „byrja spjall“.
• Efst í hægra horni heilsuveru.is er smellt á “mínar síður” hnappinn til að fá aðgang að sínum persónulegu upplýsingum og þjónustu.
• Nauðsynlegt er að skrá sig inn með rafrænum skilríkjum. Þá þarf að slá inn farsímanúmer og smella á hnappinn ,,Auðkenna mig”. Eftir stutta stund opnast staðfestingargluggi í síma. Eftir að hafa yfirfarið að sama öryggisnúmer sé á heimasíðunni og símanum þínum slærð þú inn PIN númerið þitt í símann.  
• Á forsíðu heimasvæðis má finna
  - Persónuupplýsingar
  - ofnæmisupplýsingar
  - skráð heilbrigðisstofnun
  - pantaðir tímar
  - lyfseðlar sem eru að renna út
• Vinstra megin á síðunni eru hnappar sem veita fræðslu og persónuupplýsingar um ákveðin viðfangsefni.
„COVID-19“ allar nauðsynlegar skráningar og upplýsingar vegna COVID-19.
• ,,Heilsan mín” heldur utan um skráningar og ferli mælinga sem hægt er að sinna heima.
• ,,Lyfseðlar” yfirlit yfir lyfseðla og gildistíma. Hér er hægt að senda inn beiðni um endurnýjun ​útrunninna lyfseðla. Einnig má sjá „Lyfjasaga“ og „Lyfjaumboð“ undir þessum hnappi.
• ,,Bólusetningar” birtir lista yfir bólusetningar viðkomandi sem heilsugæslan er með ​​skráðar.
,,Samskipti” býður uppá bein samskipti við heilsugæslu viðkomandi. Nýjustu skilaboðin birtast á síðunni og hægt er að senda inn ,,Ný fyrirspurn”.
• Undir „tímabókun“ má bóka tíma á heilsugæslunni eða hjá sérgreinalækni.
• Undir “líffæragjöf” má lesa ​​sér til um ýmsa fræðslu um líffæragjöf og skrá sig af líffæragjöf.
• Til að skoða sína eigin sjúkraskrá er smellt á hnappinn ,,Sjúkraskrá” og er þá hægt að velja um að skoða komu, innlagnir og/eða skimunarsögu hjá sér.
• Mikilvægt er að muna að skrá sig út með því að velja „útskrá“ 

Færni til þess að geta notað þjónustuna
Mikilvægt er að viðkomandi sé með og kunni að nota rafræn skilríki, annars er ekki hægt að fá aðgang að þínu ,,heimasvæði”

Leiðir til að fá aðgang að þjónustunni
Hægt er að skrá sig inná Heilsuveru í gegnum tölvu/spjaldtölvu eða með því að nota snjallsíma.

Öryggisþættir tengdir þjónustunni
Upplýsingar sem geymdar eru á Heilsuveru eru mjög persónulegar og um þær gilda strangar reglur Persónuverndar. Eina leiðin til að komast inn á heimasvæði einhvers annars er með því að samþykkja innskráningu frá rafrænum skilríkjum, án þess að þú hafir skráð þig sjálfur inn. Rafræn skilríki eiga að vera með þeim allra öruggustu öryggiskerfum á Íslandi.

Áhrif (hvernig getur þjónustan haft áhrif, breytt og bætt líf fólks) 
Mikill tímasparnaður næst með að þurfa ekki að hringja og bíða í símanum til að ná sambandi við rétta aðila og að þurfa ekki að gera sér ferð á heilsugæslu fyrir smáræði.
Frá og með janúar 2021 er eingöngu hægt að panta lyfjaendurnýjun í gegnum Heilsuveru. 

Download PDF