Opinber þjónusta á netinu 1

Rafræn skilríki  

Lýsing á opinberri þjónustu

Rafræn skilríki eru persónuskilríki sem notuð eru í hinum rafræna heimi. Það að auðkenna sig með rafrænum skilríkjum á netinu jafngildir því að framvísa persónuskilríkjum. Rafræn skilríki er hægt að nota til fullgildrar undirritunar og jafngildir hún eigin undirritun.

Rafræn skilríki eru ýmist vistuð á SIM-kortinu þínu í farsímanum eða á persónulegu snjallkorti sem kallast einkaskilríki.

Rafræn skilríki á farsíma:
• Til að fá rafræn skilríki þarf að fara á skráningarstað Auðkennis (audkenni.is), en þá er að finna í bönkum og Sparisjóðum um allt land.
• Til að sækja um rafræn skilríki þarftu farsíma með SIM-korti sem styður rafræn skilríki ásamt opinberu skilríki, svo sem ökuskírteini eða vegabréfi. Í bankanum/Sparisjóðnum velurðu PIN (leyninúmer) sem verður lykilorðið þitt. Rafræn skilríki virka bæði á gamla og nýja farsíma og nánast öll stýrikerfi. Það er engin þörf á viðbótar hugbúnaði.
• Þegar þú notar rafræn skilríki í síma ferð þú inn á vefsíðu, t.d. www.heilsuvera.is, og velur að skrá þig inn með rafrænum skilríkjum. Þá ertu beðinn um að slá inn símanúmerið þitt og staðfesta. Þegar því er lokið þá opnast sjálfvirkur gluggi á farsímaskjánum þínum með öryggisnúmeri. Ef það er sama númer og birtist á vefsíðunni sem þú ert að skrá þig inn á skaltu staðfesta beiðni þína. Ef þú samþykkir birtist skjámynd þar sem þú getur stimplað inn tölustafi. Þar slærð þú inn PIN-númerið sem þú valdir þér sem lykilorð.
• Þá átt þú að vera komin inn á þá síðu sem þú valdir þér, t.d. þitt svæði inn á Heilsuveru.

Rafræn skilríki á korti, svokölluð einkaskilríki: 
• Einkaskilríki eru rafræn skilríki gefin út á kortum sem eru af sömu stærð og hefðbundin greiðslukort. Þau eru tengd við tölvu með til þess gerðum lesurum og nýtast þá til almennrar auðkenningar og undirritunar. Til að sækja um einkaskilríki ferðu inn á vefsíðu Auðkennis, www.audkenni.is. Í umsókninni velur þú í hvaða banka eða Sparisjóð þú ætlar að sækja einkaskilríkið. Þá greiðir þú 1.500 kr. fyrir skilríkin á greiðslusíðu Auðkennis.
• Eftir 3 virka daga færð þú sendan tölvupóst með númeri skilríkja og gildistíma en þá ættu þau að vera komin á afhendingarstað. Númer og gildistími skilríkjakorts eru slegin inn í netbanka til að fá PUK númer.
• Þegar þú sækir einkaskilríkin þarftu að hafa með þér opinber skilríki, svo sem ökuskírteini eða vegabréf.
• Þjónustufulltrúi aðstoðar þig og þú notar PUK-númerið úr heimabankanum. Þá velur þú þér 6 tölustafa PIN-númer fyrir skilríkin. 
• Nánari upplýsingar á https://www.audkenni.is/rafraen-skilriki/einkaskilriki/
• Til þess að geta notað skilríkin þarft þú jafnframt að hlaða niður á tölvuna þína Nexus Personal hugbúnaði og tengja kortalesara við hana.  

• Þegar þú notar einkaskilríki ferð þú inn á vefsíðu, t.d. www.heilsuvera.is, og velur að skrá þig inn með rafrænum skilríkjum „Skilríki á korti". Þar smellir þú á hnappinn „Staðfesta". Þegar því er lokið þá opnast sjálfkrafa gluggi á vafranum sem biður um leyfi til að opna Nexus Personal hugbúnaðinn. Þegar þú samþykkir það þá opnast annar gluggi og þá setur þú inn PIN númerið sem þú valdir (fyrstu 4 tölurnar) og smellir þá á Staðfesta (Authenticate).
• Athugaðu að við innskráningu (auðkenningu) notar þú einungis fyrstu fjóra tölustafina í PIN-númerinu sem þú valdir, en við undirritun notar þú alla sex tölustafina.


Af hverju rafræn skilríki?
Þú getur notað rafræn skilríki til að nýta þér á auðveldan og öruggan hátt fjölbreytta þjónustu á internetinu. Þú getur notað rafræn skilríki til að fá aðgang að þjónustu yfir 180 vefsíðna, til dæmis:
• Ríkisstofnanir
• Sveitarfélög
• Bankar og fjármálastofnanir
• Tryggingafélög
• Framhaldsskólar
• Lífeyrissjóðir
• Verkalýðsfélög
• Íþróttafélög
• Orkufyrirtæki

Færni til þess að geta notað þjónustuna
Viðkomandi þarf að fara á internetið og opna vefsíðu annað hvort í tölvu eða snjalltæki. Þá þarf að nota farsíma eða kortalesara fyrir rafrænu skilríkin.

Leiðir til að fá aðgang að þjónustunni
Rafræn skilríki í farsíma
Farsími með SIM-korti sem styður rafræn skilríki.
Rafræn einkaskilríki
Kortalesari og Nexus Personal hugbúnaður af vefsíðu Auðkennis.


Öryggisþættir tengdir þjónustunni
Rafræn skilríki eru örugg en mikilvægt er að passa upp á farsímann og PIN númer rafrænu skilríkjanna. Eins er áríðandi að slá aldrei inn PIN númer skilríkjanna ef þú kannast ekki við vera að beita þeim.

Áhrif (hvernig getur þjónustan haft áhrif, breytt og bætt líf fólks) 
Rafræn skilríki eru örugg leið til að fá aðgang á auðveldan hátt að næstum allri opinberri þjónustu á internetinu. Rafræn skilríki koma í stað fjölmargra notendanafna og lykilorða sem erfitt getur reynst að muna og halda utan um.

Download PDF